Pirringur dagsins. 1.maí ganga allir út...

Ég veit ekki alveg hvort almenningur gerir sér grein fyrir því hvað það hefur í för með sér þegar geislafræðingar ganga út þann 1.maí. 

Hvað kemur mér það við kann einhver að spyrja.

Þú ferð uppá slysó eftir að hafa misstigið þig illa, fóturinn mikið bólginn og þú getur ekki stigið í hann. Læknir skoðar þig og jú, þú ert kannski brotinn en hann getur ekki verið viss og þarf því að fá röntgenmynd til að vera viss, svona uppá meðferðina sem þú færð.  En heyrðu, það eru svo fáir geislafræðingar í húsinu, ef það er þá einhver, hver á að gera rannsóknina ?  Þannig að þú endar annað hvort á því að fá teygjusokk eða settur í þrýstiumbúðir/gifs til vonar og vara þar sem ekki var hægt að taka röntgenmynd. Þér er svo sagt að koma í endurkomu eftir einhvern tíma.  Og hvað þá?  Flestir þeirra sem hafa brotnað fara í aðra röntgenmynd þegar þeir koma á endurkomu til að meta hversu vel beinið hefur gróið og hvort  þörf sé á frekari gifsmeðferð eða ekki.

En ef þú hefur brotnað þannig að þú hefðir þurft að fara í aðgerð til að brotið myndi gróa rétt ?  

Nú er það svart. Svæfingar- og skurðhjúkrunarfræðingar eru nefnilega líka að ganga út og gera bara neyðaraðgerðir, sem eru gerðar eftir alvarleg slys og svoleiðis ekki fyrir einhver "smábrot". Þannig að þú lendir í því að verða parkódeinfíkill í einhvern tíma.

Þetta á nú ekki eingöngu við í svona tilfellum, þetta er nú bara svona smá sýnishorn á einu dæmi. Við erum að tala um að það verða ekki gerðar neinar segulómrannsóknir (MRI), tölvusneiðmyndir (CT) verða bara gerðar í neyðartilfellum og almennar röntgenrannsóknir verða gerðar eins og mönnun leyfir, en hún verður víst ekki mikil.

Ekki veit ég hvað stjórnendur spítalans eru að hugsa, halda þeir virkilega að fólk fari að vinna vinnu sína í sjálfboðastarfi eða hvað.

Hvað með það sem Anna sagði í kastljósi í gær, þvílíkt rugl. Það var sagt við þetta fólk að breytingarnar hefðu ekkert með sparnað spítalans að gera, þetta væri til þess að sameina allan spítalann.  Svo segir forstjóri að það megi ekki hækka laun þessa fólks, bíddu er það ekki sparnaður?  Ef ég væri að vinna í fyrirtæki og tæki vaktir annað slagið og fengi greitt fyrir það 230 kall á mánuði, ég myndi ekki sætta mig við það ef yfirmaður minn kæmi til mín og segði mér að nú ætti ég að vinna 4 tímum lengur á hverri vakt en fengi samt enga launahækkun. Er ég þá ekki komin í sjálfboðavinnu? 

Hvernig væri það að stóru fiskarnir á þessum stöðum færu nú að bjóðast til að lækka launin sín svo spítalinn gæti sparað smá.  Ég er viss um að þeir munu ekki finna mikið fyrir því.  

 Spítalinn ætti bara að velja sér annan forstjóra og þjóðin annan heilbrigðisráðherra. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband